Stjórn og stjórnarhættir


Bankaráð Landsbankans er skipað sjö mönnum og tveimur til vara. Bankaráð er kosið á aðalfundi og er kjörtímabil bankaráðsmanna eitt ár. Bankaráð Landsbankans fer með æðsta vald í málefnum Landsbankans á milli hluthafafunda. Bankaráð ber ábyrgð á starfsemi bankans og stefnumótun og hefur jafnframt yfirumsjón með því að starfsemi bankans og rekstur sé í samræmi við lög, samþykktir bankans og aðrar reglur sem um starfsemina gilda. 

Fara neðar

Bankaráð Landsbankans

F.v. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Jón Sigurðsson, Helga Björk Eiríksdóttir, Jóhann Hjartarson, Tryggvi Pálsson, Kristján Davíðsson og Danielle Pamela Neben.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs

Tryggvi Pálsson hefur víðtæka reynslu á fjármálamarkaði og hefur gegnt leiðandi hlutverki í rekstri fjölmargra fjármálafyrirtækja. Hann lauk prófi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands og meistaragráðu í þjóðhagfræði frá London School of Economics. Tryggvi er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf og stjórnarstörf. Hann starfaði hjá Landsbanka Íslands hf. sem forstöðumaður hagfræði- og áætlanadeildar 1976-1984 og var framkvæmdastjóri fjármálasviðs 1984-1988. Árið 1988 var hann ráðinn bankastjóri Verslunarbanka Íslands hf. en gegndi síðan lykilhlutverki í samruna fjögurra banka við stofnun Íslandsbanka hf. 1990.

Tryggvi var bankastjóri og framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka á árunum 1990-2000. Hann var ráðgjafi bankastjórnar Seðlabankans 2000-2001 og framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans 2001-2011. Tryggvi hefur gegnt ýmsum öðrum stjórnunarstörfum á fjármálamarkaði, setið í opinberum nefndum, sinnt margvíslegum félagsstörfum og annast kennslu í þjóðhagfræðum og bankafræðum á háskólastigi.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir varaformaður

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir er fjármálastjóri Advania á Íslandi. Hún var áður forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri hf., stjórnarmaður í Skeljungi og stundakennari í meistaranámi í fjármálaverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá Columbia University í Bandaríkjunum ásamt grunngráðu í hagverkfræði frá sama skóla. Þá hefur hún lokið löggildingarprófi í verðbréfamiðlun.

Danielle Pamela Neben

Danielle Pamela Neben starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi. Hún starfaði hjá HSBC-bankanum, sem er einn stærsti banki heims, á árunum 1993-2013 í sjö löndum, m.a. í Bretlandi, Þýskalandi, Taívan og Singapore. Hún lauk háskólanámi í viðskiptafræði frá McGill University í Kanada með áherslu á fjármál. Danielle átti sæti í framkvæmdastjórn HSBC Trinkaus & Burkhardt (Int.) SA í Lúxemborg 2012-2013 sem framkvæmdastjóri á rekstrarsviði. Áður var hún í ýmsum stjórnunarstörfum innan HSBC-bankans.

Helga Björk Eiríksdóttir

Helga Björk Eiríksdóttir er framkvæmdastjóri Integrum sem starfar á sviði fasteignaþróunar og ráðgjafar. Hún var áður fjárfesta- og almannatengill hjá Marel ásamt því að gegna formennsku í stjórn Sparisjóðs Svarfdæla. Helga Björk er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í ensku og ítölsku frá Háskóla Íslands 1997 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun 1999 frá sama skóla. Meðal annarra starfa eru umsjón með samskiptamálum fyrir skilanefnd og slitastjórn Kaupþings hf. á árunum 2009 og 2010 og hún var áður markaðs- og kynningarstjóri Nasdaq OMX-kauphallarinnar á Íslandi um átta ára skeið.

Jóhann Hjartarson

Jóhann Hjartarson hefur verið yfirlögfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar ehf. frá árinu 1998 en var einnig yfirlögfræðingur deCODE genetics Inc. á árunum 1998-2009. Jóhann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992 og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður (hdl.) 1998. Hann er einnig með diplóma í alþjóðlegum hugverka- og einkaleyfarétti frá University of Washington School of Law 1998 og réttindi til málareksturs hjá Evrópsku einkaleyfastofunni frá 2006. Jóhann situr nú í stjórn Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (formaður) en auk þess er hann varamaður í stjórn UVS - Urður, Verðandi, Skuld ehf.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson hefur víðfeðma rekstrar- og stjórnunarreynslu. Hann hefur m.a. starfað á sviði fjármála, innkaupa, fjárfestingar, ráðgjafar og stefnumótunar hjá fyrirtækjum í fjölþættum rekstri. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf og stjórnunarstörf. Jón starfaði sem framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Promens árin 2008-2015 en áður var hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs félagsins árin 2004-2007. Á árunum 1999-2004 starfaði Jón sem forstöðumaður fjárfestingarsviðs hjá Framtaki fjárfestingarbanka.


Kristján Davíðsson

Kristján Þ. Davíðsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Isder ehf. síðan 2009. Hann er með skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskóla Íslands og meistaragráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Áður var hann framkvæmdastjóri skilanefndar Glitnis banka hf. frá 2008-2009 en hann var um árabil starfsmaður Glitnis/Íslandsbanka og starfaði þar meðal annars sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og sem forstöðumaður sjávarútvegsviðskipta á alþjóðasviði bankans. Hann hefur starfað hjá SÍF hf. og Marel hf. við sölu og markaðsstörf og einnig sem forstjóri Granda hf. og aðstoðarforstjóri HB Granda hf.

Varamenn

Árni G. Hauksson

Árni G. Hauksson er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf og stjórnunarstörf í Japan og á Íslandi. Árni lauk prófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands árið 1992. Hann stundaði síðan framhaldsnám við Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum og lauk þaðan meistaragráðu í aðgerðarannsóknum árið 1993 og doktorsprófi árið 1997.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hefur stundað kennslu og rannsóknir hérlendis og erlendis og gegnir nú prófessorsstöðu við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í hagfræði frá University of Miami í Bandaríkjunum árið 2006 en þar áður stundaði hún meistaranám í hagfræði við sama skóla og í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Stjórnarhættir

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Á hverju ári gerir Landsbankinn úttekt á því hvort viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í desember 2014 að Landsbankinn hefði fengið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar var byggð á úttekt á stjórnarháttum sem unnin var af Deloitte í nóvember 2014. 

Niðurstaða úttektar Deloitte á stjórnarháttum Landsbankans var talin gefa skýra mynd af stjórnarháttum bankans og benda til þess að Landsbankinn geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í góðum stjórnarháttum.

Stjórnarháttayfirlýsing Landsbankans

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild