Framkvæmdastjórn og skipulag


Meginstarfsemi bankans skiptist á milli sex sviða: Þriggja tekjusviða og þriggja stoðsviða. Tekjusviðin eru: Einstaklingar, Fyrirtæki og Markaðir. Stoðsviðin eru: Áhættustýring, Fjármál og Rekstur og upplýsingatækni. Í framkvæmdastjórn Landsbankans sitja sjö manns: bankastjóri og framkvæmdastjórar sviðanna.

Fara neðar

Bankastjóri

Bankastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs.

Steinþór Pálsson er bankastjóri Landsbankans.

Steinþór hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum við banka og framleiðslufyrirtæki, bæði innanlands og erlendis, og mikla reynslu af breytingastjórnun og stefnumótun. Steinþór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá Edinborgarháskóla. Bankastjóri annast daglegan rekstur Landsbankans og fylgir ákvörðunum bankaráðs eftir.

Á árum áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra lánasviðs Verzlunarbanka Íslands og varð síðar starfsmaður Íslandsbanka, m.a. sem forstöðumaður lánadeildar, fjárfestingarlána, útibúaþjónustu, áhættustýringar og fyrirtækjaþjónustu. 

Hann var um hríð fjármála- og rekstrarstjóri líftæknifyrirtækisins Urður, Verðandi, Skuld, en starfaði síðan í átta ár hjá Actavis. Fyrst sem framkvæmdastjóri Actavis á Möltu, þá sem framkvæmdastjóri Actavis í Bandaríkjunum og á árunum 2008-2010 sem framkvæmdastjóri Actavis samstæðunnar á Íslandi á sviði stefnumótunar.

Steinþór er formaður Samtaka fjármálafyrirtækja á Íslandi og stjórnarmaður í European Banking Federation.

Fyrirtæki

Meginhlutverk Fyrirtækjasviðs snýr að þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans heyrir einnig undir sviðið.

Árni Þór Þorbjörnsson er framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs.

Árni er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með diplóma í rekstrar- og viðskiptafræði. Hann hlaut löggildingu í Corporate Finance frá Securities & Investment Institute í London 2005. 

Árni hóf störf hjá Landsbankanum 1996. Á fyrstu árunum annaðist hann almenn lögfræðistörf, ráðgjöf og málflutning. Árni var yfirlögfræðingur Fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. til ársins 2008, en við stofnun Landsbankans hf. tók Árni við sem framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs.

Einstaklingar

Meginhlutverk Einstaklingssviðs er að annast viðskipti við einstaklinga og veita útibú á landsbyggðinni fyrirtækjum alla almenna bankaþjónustu.

Helgi Teitur Helgason er framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs.

Helgi lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1998.

Sama ár hóf hann störf hjá Landsbankanum sem lögfræðingur og síðar lögmaður. Helgi leiddi opnun skrifstofu Intrum og Lögheimtunnar á Akureyri vorið 2001 og starfaði þar sem svæðisstjóri og lögmaður á Norðurlandi til vorsins 2004 þegar hann tók við starfi útibússtjóra Landsbankans á Akureyri. Hann hefur verið framkvæmdastjóri einstaklingssviðs frá árinu 2010.

Markaðir

Meginhlutverk Markaða er að annast þjónustu er snýr að sölu og miðlun verðbréfa, viðskiptavakt, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er framkvæmdastjóri Markaða.

Hrefna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið  löggildingarprófi í verðbréfaviðskiptum. Hrefna hóf störf hjá Landsbankanum 2010.

Hrefna starfaði sem sjóðstjóri hjá Arev verðbréfafyrirtæki frá árinu 2007 þar til hún gekk til liðs við Landsbankann. Þá starfaði Hrefna sem forstöðumaður skráningarsviðs og sérfræðingur á því sviði hjá Kauphöll Íslands frá 1998-2006. Áður gegndi hún starfi forstöðumanns einstaklingsþjónustu hjá Fjárvangi og var starfsmaður á peningamálasviði Seðlabanka Íslands.

Áhættustýring

Áhættustýring ber ábyrgð á greiningu áhættu og eftirliti með henni. Áhættustýring gegnir enn fremur veigamiklu hlutverki í útlánaferli bankans.

Perla Ösp Ásgeirsdóttir er framkvæmdastjóri Áhættustýringar.

Perla er með MSc.-gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík. Perla hóf störf hjá Landsbankanum sem forstöðumaður Áhættustýringar 2010 og varð framkvæmdastjóri Áhættustýringar síðar sama ár.

Perla starfaði hjá Seðlabanka Íslands á árabilinu 2005-2010 og hjá rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009. Perla sinnti m.a. eftirliti með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum hjá Seðlabanka Íslands og annaðist gerð áhættulíkana fyrir íslenskan fjármálamarkað. Perla var ráðin forstöðumaður áhættustýringar Landsbankans í apríl 2010 og framkvæmdarstjóri í október.

Fjármál

Fjármál bera ábyrgð á fjárstýringu bankans, reikningshaldi og áætlanagerð. Undir sviðið heyra einnig Lögfræðideild og Endurútreikningur lána.

Hreiðar Bjarnason er framkvæmdastjóri Fjármála.

Hreiðar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, er með MSc.-gráðu í fjármálafræðum frá London Business School og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Hreiðar hóf störf í Landsbanka Íslands hf. árið 1998, fyrst sem sérfræðingur í Markaðsviðskiptum og síðar í Fjárstýringu. 

Hreiðar tók við sem framkvæmdastjóri Markaða og fjárstýringar Landsbankans hf. snemma árs 2010, en tók við stöðu sem framkvæmdastjóri Fjármála í ágúst 2012.

Hreiðar er staðgengill bankastjóra.

Rekstur og upplýsingatækni

Rekstur og upplýsingtækni er blandað svið. Allar deildir sviðsins eiga það sameiginlegt að sinna rekstri og þróun á innviðum Landsbankans. 

Ragnhildur Geirsdóttir er framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatækni.

Ragnhildur lauk CS-prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MSc.-prófi í iðnaðarverkfræði frá University of Wisconsin, Madison 1996 og MSc.-prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998. Ragnhildur hóf störf í Landsbankanum 2012.

Ragnhildur starfaði sem sérfræðingur hjá Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) 1998–1999. Á árunum 1999–2005 vann hún hjá Flugleiðum hf./FL Group hf., m.a. sem forstjóri. Ragnhildur var forstjóri Promens hf. 2006–2011. 

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun leggur mat á stjórnarhætti, áhættustjórnun og eftirlitsaðferðir Landsbankans. Athugunum Innri endurskoðunar er, auk annars, ætlað að veita hæfilega vissu um að bankinn nái markmiðum sínum varðandi skilvirkni, varðveislu eigna, áreiðanleika upplýsinga og að hann fylgi lögum og reglum.

Kristín Baldursdóttir er innri endurskoðandi Landsbankans.

Kristín er hagfræðingur frá Háskóla Íslands, með MPM-gráðu frá sama háskóla, hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og er með alþjóðlega vottun sem innri endurskoðandi.

Kristín hóf störf sem innri endurskoðandi hjá Landsbankanum hf. árið 2009. Áður starfaði Kristín hjá Íslandsbanka um 18 ára skeið sem viðskiptastjóri, verkefnastjóri og forstöðumaður rekstrardeildar bankans.

Regluvarsla

Regluvarsla hefur það hlutverk að veita starfsfólki Landsbankans fræðslu og ráðgjöf vegna laga um verðbréfaviðskipti, hafa eftirlit með framkvæmd laganna og takmarka eins og kostur er reglufylgniáhættu bankans. Þá hefur regluvarsla einnig það hlutverk að annast varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þórður Örlygsson er regluvörður Landsbankans.

Þórður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Landsbankanum árið 2004, fyrst sem sérfræðingur í skuldaúrlausnum en tók við sem regluvörður árið 2005.

Áður starfaði Þórður sem sérfræðingur í lögfræðiráðgjöf hjá Kaupþingi banka hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Skipurit Landsbankans

Skipurit 2015