Ávarp formanns bankaráðs


Með markvissu starfi hefur staða Landsbankans styrkst. Mikilvægir áfangar náðust á árinu 2015 og ber þar einkum að nefna upphaf á innleiðingu nýrrar stefnu til ársins 2020, fjármögnun á erlendum lánsfjármörkuðum og samruna sparisjóða við bankann.
Fara neðar

Í skýrslu stjórnar á undanförnum aðalfundum hefur verið sagt með skýrum hætti að þrátt fyrir góðan hagnað þurfi að bæta afkomuna af kjarnastarfsemi bankans. Ný stefna var kynnt á síðasta aðalfundi og er markmið hennar að ná arðseminni til frambúðar yfir 10% að fjórum árum liðnum.

Bankinn setur þarfir viðskiptavina í forgrunn og nýtir tækifærin sem felast meðal annars í hagkvæmari samsetningu efnahags, auknum viðskiptum, skilvirkni og kostnaðaraðhaldi. Unnið er að fjölda verkefna og þeim er fylgt eftir með kerfisbundum hætti. Frábært starfsfólk bankans sér til þess að árangurinn skili sér samkvæmt áætlun, og áfram verður haldið.

Við stofnun Landsbankans hf. árið 2008 og allt fram til síðasta árs hafði bankinn takmarkað aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum. Í lok árs 2009 var samið við slitabú gamla bankans (LBI) um lán gegn skuldabréfum sem ásamt síðar útgefnu skilyrtu skuldabréfi námu 352 ma. kr.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs

Nú hefur tekist að lækka þessa skuld í 125 ma. kr. með samningum við LBI og nýrri erlendri fjármögnum bankans. Gert er ráð fyrir fullri uppgreiðslu skuldarinnar við LBI á næstu tveimur árum. Viðskiptavinir Landsbankans, bæði fyrirtæki og heimili, eiga eftir að njóta þessa árangurs.

Skuld Landsbankans við LBI hf. (ma. kr.)

Á árinu leituðu Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Norðurlands til bankans og vildu leysa aðkallandi fjárhagsvanda sinn. 

Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna fyrrnefnda sparisjóðsins við Landsbankann í lok mars 2015 og síðari samruninn var samþykktur af eftirlitsaðilum í september.

Landsbankinn sá sér hag í samrununum og vildi jafnframt forða því að langur og lengst af farsæll ferill þessara sparisjóða fengi slæman endi fyrir viðskiptamenn, starfsmenn og eigendur. 

Við samrunana fjölgaði hluthöfum Landsbankans og eru þeir nú orðnir tæplega tvö þúsund.

Framundan eru spennandi tímar. Með lúkningu fordæmisgefandi dómsmála hefur verið dregið úr óvissu og stefnt er að afléttingu fjármagnshafta. Ekkert er að vanbúnaði að skrá bankann á hlutabréfamarkað og að ríkið selji af hlut sínum ef vilji stjórnvalda stendur til þess.

Áður en að því kemur er unnt að greiða út hluta þess eiginfjár bankans sem er umfram viðmið bankaráðs og kvaðir eftirlitsaðila. Ríkissjóður getur þá grynnkað á skuldum sínum og það styrkir lánshæfi ríkisins og þar með allra íslenskra lántakenda.

Landsbankinn er vel hæfur til skráningar á markað, með traustan fjárhag. Hraður vöxtur er ekki takmarkið heldur að treysta enn stöðu og afkomu bankans svo að unnt verði að greiða jafnan og góðan arð á komandi árum.

Skipting eignarhalds á Landsbankanum

Nafn Eignarhlutur
Ríkissjóður Íslands 98,20%
Landsbankinn hf. 0,91%
Núverandi og fyrrum starfsmenn bankans* 0,78%
Fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands (aðrir en íslenska ríkið) 0,11%
   
*Árið 2013 fengu um 1.400 starfsmenn og fyrrum starfsmenn afhenta hluti í Landsbankanum í samræmi við samning um uppgjör LBI hf. og íslenska ríkisins.