Ávarp Steinþórs Pálssonar bankastjóra


Traust og fagleg fjármálaþjónusta er ein af meginforsendum öflugs hagkerfis og hagsældar. Landsbankinn er stærsta fjármálafyrirtæki landsins og við sem störfum þar gerum okkur grein fyrir því mikilvæga hlutverki sem bankinn gegnir; að einstaklingar og fyrirtæki geti fengið öfluga fjármálaþjónustu sem stuðlar að vexti og viðgangi hagkerfisins, án þess að stöðugleika sé ógnað, og að réttur neytenda sé um leið tryggður.

Fara neðar

Stefna Landsbankans er skýr. Framtíðarsýn bankans er að hann verði til fyrirmyndar. Í því felst að setja viðskiptavini bankans í forgang og að þeir finni að þeir njóti gagnkvæms ávinnings af viðskiptunum. Um leið þarf bankinn að vera álitlegur fjárfestingarkostur. Landsbankinn ætlar að vera traustur samherji í fjármálum og starfa í sátt við samfélagið og umhverfið. Við viljum að sagt sé um bankann: „Svona á banki að vera.“

Til að tryggja framgang stefnu bankans hefur bankinn sett sér markmið og mótað ítarlega verkáætlun sem unnið verður eftir á næstu árum. Markmiðin snúast um ánægða og trygga viðskiptavini, hagkvæmni, arðsemi, að starfsemin sé í samræmi við áhættuvilja og að bankinn hafi á að skipa öflugu og ánægðu starfsfólki.

Landsbankanum gekk vel á árinu 2015. Samkeppni á markaði er hörð en staða bankans er sterk og markaðshlutdeild hans fer vaxandi. Hér verða nefnd nokkur dæmi: Á einstaklingsmarkaði jók bankinn forskot sitt. Um sl. áramót mældist hlutdeild bankans 36,1%, hún var sú mesta á einstaklingsmarkaði og hefur aldrei mælst hærri. Bankinn er leiðandi í lánum til fyrirtækja og mikill vöxtur var í stýringu eigna, bæði hjá bankanum og Landsbréfum, dótturfélagi bankans. Þá var bankinn umsvifamestur í viðskiptum á hlutabréfamarkaði.

Steinþór Pálsson bankastjóri

Fjárhagslegt uppgjör bankans árið 2015 var það besta frá upphafi. Hagnaður Landsbankans á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 14,8%. Mikilvægt er að hagnaður af reglubundinni starfsemi bankans skili ásættanlegri arðsemi fyrir hluthafa og stefna Landsbankans er að skila 10% arðsemi til lengri tíma. Hagnaður er forsenda þess að bankinn geti fjárfest til að mæta kröfum viðskiptavina, nú og í framtíð, um öfluga og örugga fjármálaþjónustu.

Hagnaður (m. kr.)

Eigið fé bankans nam 264,5 milljörðum króna í árslok 2015 og er eigið fé, sem hlutfall af áhættuvegnum eignum, 30,4%. Áhætta í starfsemi bankans hefur minnkað hratt, m.a. vegna sölu áhættusamra eigna og lækkandi vanskila, en vanskilahlutfallið í lok árs var 1,8%. Sterk staða bankans gerir honum kleift að greiða hluthöfum verulegan arð og leggur stjórn bankans til við aðalfund að greiddir verði 28,5 milljarðar króna í arð á árinu 2016, vegna starfsemi á árinu 2015. Stefna Landsbankans um arðgreiðslur er að meirihluti hagnaðar hvers árs verði greiddur út sem arður, en um leið sé tryggt að fjárhagsstaða bankans verði áfram sterk. Verði tillaga stjórnar samþykkt á aðalfundi munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2016 nema um 82 milljörðum króna. Mestallar arðgreiðslur hafa runnið í ríkissjóð og koma, ásamt verulegum skattgreiðslum bankans, öllu samfélaginu til góða.

Undanfarin ár hafa stórir einsskiptisliðir, s.s. jákvæðar virðisbreytingar útlána, sett mikinn svip á uppgjör bankans og svo er einnig að þessu sinni. Ljóst er að bankinn getur ekki reitt sig á miklar tekjur vegna jákvæðra virðisbreytinga til framtíðar. Mikilvægt er að rekstur bankans sé skilvirkur og hagkvæmur. Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára. Rekstrarkostnaður lækkaði og tekjur jukust vegna vaxandi umsvifa. Áfram verður unnið að því að auka hagkvæmni í rekstri til að efla samkeppnisstöðu bankans.

Landsbankinn hefur markað sér skýra stefnu í samfélagsábyrgð og samhliða ársskýrslu gefur bankinn út samfélagsskýrslu, fimmta árið í röð. Einn mikilvægasti liðurinn í samfélagsstefnu bankans er að stuðla að auknu jafnrétti innan bankans, m.a. í launamálum kynjanna. Góður árangur bankans í þessum efnum var staðfestur þegar bankinn hlaut í mars 2015 gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC. Bankinn var fyrstur íslenskra banka til að hljóta gullmerkið.

Við sem störfum í bankanum erum þakklát fyrir það hversu margir kjósa að vera viðskiptavinir Landsbankans. Starfsfólki færi ég þakkir fyrir vel unnin störf.