Stuðningur og styrkir


Samfélagsstuðningur Landsbankans er mikilvægur liður í stefnu bankans um samfélagsábyrgð. Landsbankinn styður fjölmörg samfélagsverkefni með beinum fjárframlögum, bæði úr Samfélagssjóði og með gagnkvæmum samstarfssamningum.

Fara neðar

Heildarstuðningur við samfélagsmál

110 milljónir króna

Alls nam beinn fjárhagslegur stuðningur Landsbankans til stærri samfélagsverkefna um 110 milljónum árið 2015. Til viðbótar þessu styrkja útibú bankans fjölbreytt verkefni í nærsamfélagi sínu , þ.m.t. íþrótta- og æskulýðsstarf, mannúðarfélög og frjáls félagasamtök og nemur sá stuðningur tugum milljóna á ári. Jafnframt er mikil áhersla lögð á að bjóða viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf með skýra samfélagslega tengingu. Loks vill bankinn vera virkur þátttakandi í samfélagsverkefnum með ráðgjöf og sjálfboðastarfi starfsmanna.

Bankinn styrkir samfélagsverkefni, þar með talið menningarstarf og listastarf, einkum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi í gegnum Samfélagssjóð, þar sem engar kröfur eru gerðar á móti styrkjum, í öðru lagi með samstarfssamningum með gagnkvæmum ávinningi og loks fyrir tilstilli útibúa sem styðja vel við bakið á verkefnum í heimabyggð. Undir hatti Samfélagssjóðs eru nú þrjár aðskildar úthlutanir – námsstyrkir, samfélagsstyrkir og umhverfisstyrkir.

Heildarstuðningur við samfélagsmál (utan útibúa) (m. kr.)

Samfélagssjóður

Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi bankans við samfélagið. Árið 2015 voru veittir þrenns konar styrkir: Landsbankinn veitti sex milljónir í námsstyrki, tuttugu milljónir í samfélagsstyrki og loks fimm milljónir í umhverfisstyrki. Alls námu styrkir úr Samfélagssjóði 31 milljón króna á árinu.

Samfélagsstuðningur bankans hefur verið í föstum skorðum síðustu ár. Áhersla er lögð á að stuðningur við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Bankinn hefur sett sér þá reglu að dómnefndir skuli skipaðar fagfólki að meirihluta. Loks er farvegur fyrir styrki skýr svo að viðskiptavinir bankans og aðrir landsmenn hafi jafna möguleika til að sækja um styrki.

Sjálfboðastarf og ráðgjöf

Landsbankinn leitast við auka beina þátttöku starfsmanna í samfélagsverkefnum, meðal annars með ráðgjöf og sjálfboðastarfi á vinnutíma. Á síðasta ári lögðu starfsmenn meðal annars fram vinnu sína við jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar og árlega landssöfnun Á allra vörum, svo nokkuð sé nefnt. Landsbankinn hefur enn fremur boðið fram sérfræðiþekkingu starfsmanna við ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum og nýsköpun.

Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir í samvinnu við aðildarfélögin. Markmiðið er að fræða nemendur tíunda bekkjar í öllum skólum landsins um grunnþætti fjármála og veita innblástur í kennslu um fjármál. Loks hefur starfsfólk setið í dómnefndum, meðal annars í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Innovit sem Landsbankinn styrkir.

Markmið með styrkjum úr Samfélagssjóði

  • Fjölbreyttur stuðningur við samfélagið sem nýtist mörgum.
  • Fagfólk skipar meirihluta dómnefnda.
  • Jafnræði og dreifing við úthlutun styrkja er tryggð eins og kostur er.
  • Landsbankinn leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt vinnu sína og einkalíf.
  • Skýr farvegur fyrir styrkveitingar bankans.