Samstarfsverkefni


Landsbankinn tekur virkan þátt í mörgum samstarfsverkefnum til að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Verkefnin eru fjölbreytt og snerta margar hliðar samfélagsins, s.s menningu, fræðslu, nýsköpun, ferðaþjónustu og lýðheilsu.

Fara neðar

Hinsegin dagar

Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og er stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík. Auk þess að styðja hátíðina með fjárframlagi hefur Landsbankinn tekið að sér að dreifa dagskrárriti hátíðarinnar í öllum útibúum bankans í því skyni að kynna hátíðina enn betur um land allt.

 

Nánar um Hinsegin daga

Skólahreysti

Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári og keppa nú yfir 600 krakkar fyrir hönd skóla sinna og nokkur þúsund krakkar eru virkir félagar í stuðningsliðum. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.

 

Nánar um Skólahreysti

Iceland Airwaves

Landsbankinn er stoltur bakhjarl tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Bankinn vill með þessu styðja við bakið á ungu tónlistarfólki, og er það í senn liður í samfélagsábyrgð bankans og til að veita virkan stuðning við listir og menningu í landinu. Líkt og í fyrra fékk Landsbankinn ungt og efnilegt tónlistarfólk til að aðstoða við að hita upp fyrir hátíðina sem var haldin dagana 4.-8. nóvember, þau Axel Flóvent, dj flugvél og geimskip og Hr. Hnetusmjör. 

Viðtöl við þetta efnilega tónlistarfólk má finna á Airwaves-vef Landsbankans, en það kom einnig fram á „off-venue” tónleikum í útibúi bankans við Austurstræti, laugardaginn 7. nóvember, og spilaði fyrir fullu húsi gesta við góðar undirtektir.

Iceland Airwaves vefur Landsbankans

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Landsbankinn er bakhjarl Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ásamt tíu öðrum fyrirtækjum og er með hæsta framlag allra fyrirtækjanna. Landsbankinn hefur styrkt stofnun Vigdísar með veglegum hætti á síðustu árum. Styrkjum til stofnunarinnar verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda, og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.

UN Women

Landsbankinn hefur átt mjög gefandi samstarf við UN Women á Íslandi undanfarin ár og verið bakhjarl landsnefndarinnar í mikilvægum verkefnum. Bankinn er til að mynda bakhjarl HeForShe-verkefnisins en markmið þess er að hvetja karla og stráka til að láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum vígstöðvum.

Landsbankinn skrifaði árið 2011 undir Jafnréttissáttmálann (Women‘s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins en í sáttmálanum eru sjö viðmið sem hafa skal að leiðarljósi við að efla konur innan fyrirtækja og auka þátt þeirra í atvinnulífinu.

Menningarnótt

Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi og hefur bæði opnað dyr sínar fyrir gestum og gangandi og verið bakhjarl hátíðarinnar alla tíð. Það hefur verið bankanum kappsmál að fjárstuðningur hans renni beint til listamanna og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt.

Til að ná því markmiði var stofnaður sérstakur Menningarnæturpottur á vegum Höfuðborgarstofu og Landsbankans. Markmið hans er að veita frumlegum og sérstökum hugmyndum brautargengi. Veittir eru margir hóflegir styrkir en potturinn hefur verið góð viðbót við farsælt samstarf Höfuðborgarstofu og Landsbankans.

Fjármálafræðsla

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í grunn- og framhaldsskólum. Bankinn tekur virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er kennsluefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla, en það eru Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) sem standa fyrir verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin. Starfsfólk aðildarfélaga SFF um allt land heimsækja skóla á sínu svæði og miðla námsefninu.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins

Háskólasjóður Eimskipafélagsins er í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005. Það ár voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram 2006 og hafa yfir 80 doktorsnemar í fjölmörgum fræðigreinum stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.

Ráðstefnur og fundir

Landsbankinn stendur á hverju ári fyrir fjölbreyttum ráðstefnum og fundum, auk þess sem bankinn gefur út ýmis sérrit og greiningar um efnahagsmál og atvinnulífið. Á árinu 2015 stóð bankinn fyrir fjórum stórum ráðstefnum: um horfur og tækifæri á fjarskiptamarkaðnum, um vöxt í ferðaþjónustu, um þau tækifæri sem lægra olíuverð skapar og loks hina árlegu ráðstefnu bankans þar sem þjóðhagsspá Hagfræðideildar er kynnt. Á þeirri ráðstefnu var einnig fjallað um afnám hafta og stöðugleikaskilyrðin. Yfir eitt þúsund manns sóttu þessar ráðstefnur bankans sem hafa treyst sig í sessi sem mikilvægur vettvangur margra af helstu viðfangsefnum samtímans.

Stuðningur við íþróttir og æskulýðsstarf

Landsbankinn kappkostar að styðja íslenskt íþróttalíf. Það gera útibú bankans með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög hringinn í kringum landið. Í slíku samstarfi leggur bankinn mikla áherslu á að styðja barna- og unglingastarf og að stuðningur nýtist jafnt íþróttum karla og kvenna.

Stærsti einstaki styrktarsamningur bankans á sviði íþrótta er við Knattspyrnusamband Íslands. Ásamt fimm öðrum fyrirtækjum styrkir Landsbankinn uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.

Iceland Luxury

Landsbankinn hefur ásamt Icelandair Group, Bláa Lóninu, og Meet in Reykjavík tekið höndum saman um stefnumarkandi verkefni til þriggja ára sem miðar að markaðssetningu á Reykjavík og Íslandi fyrir ferðamenn sem krefjast hágæðaþjónustu. Verkefnið ber heitið Iceland Luxury og er hýst og því stjórnað af Meet in Reykjavík. Markmið þessa samkomulags er að stuðla að langtímastefnumörkun á þessu sviði, styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands í augum vel stæðra ferðamanna, auka samtakamátt fyrirtækja sem starfa á þessum markaði, og hvetja til þróunar innviða og þjónustu fyrir þennan markhóp. Samstarfið er framhald af þeirri uppbyggingu sem hófst með stofnun Meet in Reykjavík árið 2012 og styður Landsbankinn einnig þá starfsemi.

Ísland – allt árið

Landsbankinn hefur frá upphafi stutt markaðsverkefnið Ísland – allt árið. Skrifað var undir nýjan samning um verkefnið 18. desember 2014 og gildir hann til loka árs 2016. Tilgangur verkefnisins er að festa ferðaþjónustu enn betur í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi hennar með það fyrir augum að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Markaðssetning fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmdina.

Nánar um Inspired by Iceland

Íslenski sjávarklasinn

Landsbankinn er samstarfsaðili Íslenska sjávarklasans, en tilgangur hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á nýtingu sjávar, með beinum eða óbeinum hætti. Íslenski sjávarklasinn hefur frá stofnun stuðlað að framþróun og nýsköpun í þeim greinum sem mynda klasann, í samstarfi við fyrirtæki og menntastofnanir, og stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi. Um 60 fyrirtæki og stofnanir í margvíslegri sjávartengdri starfsemi á Íslandi eiga formlega aðild að samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans.

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitir Landsbankinn konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega. Landsbankinn veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum og tryggir þannig konum í nýrri starfsemi rýmri aðgang að fjármagni en ella og eykur möguleika þeirra á að stofna fyrirtæki. Samstarfssamningurinn er liður Landsbankans í að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar í landinu.

Öndvegissetur um verndun hafsins

Landsbankinn er einn af bakhjörlum Hafsins, öndvegisseturs um verndun hafsins, en setrinu er ætlað að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni. Verkefnið er í senn umfangsmikið og metnaðarfullt og er stutt af fjölmörgum aðilum auk Landsbankans: umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Granda hf., Clean Tech Iceland, sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni, og fjölda tæknifyrirtækja. Hafið verður vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi.

Klasasamstarf í ferðaþjónustu

Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið samstarfsins er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði prófessors Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.