Samfélagsábyrgð


Samfélagsábyrgð er mikilvægur þáttur í starfsemi Landsbankans og rík áhersla er lögð á að hún sé samþætt stefnumörkun bankans í heild. Bankinn vill tryggja að starfsemin sé í fullri sátt við samfélagið og um leið að arðsemi sé viðunandi fyrir hluthafa. Þannig rennur ávinningur bæði til samfélags og eigenda.

Fara neðar
Landsbankinn hugar að samfélagsábyrgð sinni með ýmsu móti. Undanfarið hefur markvisst verið unnið að innleiðingu stefnu um ábyrgar fjárfestingar, skrifstofumhverfið hefur verið gert umhverfisvænna og efnt hefur verið til samstarfs við ýmsa utanaðkomandi aðila til að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Landsbankinn var eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að stofnun Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, árið 2011.

Tíu ár í UN Global Compact

Landsbankinn gerðist aðili að UN Global Compact árið 2006. UN Global Compact er samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins til að fylgja eftir markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið snýst um að hvetja fyrirtæki til að sýna samfélagsábyrgð í verki. Fyrirtæki, sem staðfesta samkomulagið, kjósa að fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að efla sjálfbærni í rekstri og framfylgja ábyrgum viðskiptaháttum.

Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) og er birt á vef bankans á sama tíma og ársskýrslan. Í henni er miðlað samanburðarhæfum upplýsingum frá ári til árs og áhersla lögð á að leggja fram greinargóðar upplýsingar um aðferðir við innleiðingu og þróun samfélagsábyrgðar í Landsbankanum. Samfélagsskýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact.

Áhersla á ábyrgar fjárfestingar

Í Landsbankanum er markvisst unnið að innleiðingu stefnu í ábyrgum fjárfestingum. Bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI og tekur mið af reglum um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti.

Samfélagsskýrsla Landsbankans

Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) og er birt á vef bankans á sama tíma og ársskýrslan.

Stefnu um ábyrgar fjárfestingar er ætlað að skilgreina ramma sem gerir bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Slík stefna hefur að mati Landsbankans jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur því úr rekstraráhættu bankans.

Meginatriði jafnréttisstefnunnar

  • Í Landsbankanum eiga karlar og konur jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
  • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna bankans og forðast að skilgreina störf sem karla- eða kvennastörf.
  • Landsbankinn greiðir körlum og konum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf.
  • Landsbankinn leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt vinnu sína og einkalíf.
  • Landsbankinn gætir þess að bæði kynin hafi jöfn tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.
  • Í Landsbankanum líðst hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.

Öflug jafnréttisstefna

Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina. Jafnréttisstefna bankans leggur áherslu á að allir eigi jafna möguleika óháð kynferði, aldri, uppruna, kynhneigð, fötlun, trúarbrögðum eða annarri menningarlegri stöðu. Landsbankinn leggur áherslu á að ráða jafnt konur sem karla í stjórnunarstöður.

Á árinu 2015 hlaut Landsbankinn gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og varð fyrstur banka á Íslandi til þess, auk þess að vera stærsta fyrirtæki á Íslandi sem hlýtur gullmerkið. Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti í launum og starfstækifærum. Gullmerki PwC er því mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Birtar hafa verið tölur um launamun karla og kvenna í samfélagsskýrslunni frá því að byrjað var að gefa hana út.

Landsbankinn skrifaði undir Jafnréttissáttmálann (Women‘s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact, árið 2011. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins en í sáttmálanum eru sjö viðmið sem hafa skal að leiðarljósi við að efla konur innan fyrirtækja og auka þátt þeirra í atvinnulífinu.

Árið 2010 setti bankinn sér það markmið að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans yrði aldrei minni en 40%. Í framkvæmdastjórn bankans sitja nú sjö manns, þrjár konur og fjórir karlar, að bankastjóra meðtöldum.

Í jafnréttisstefnu bankans kemur m.a. fram að í Landsbankanum skuli karlar og konur hafa jafna möguleika og njóta sömu réttinda í starfi og til starfsframa. Í stefnunni kemur einnig fram að Landsbankinn stefni að jöfnu hlutfalli kynjanna meðal starfsmanna, að störf flokkist ekki sem karla- eða kvennastörf og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Þá líðst hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.

Fjölmörg verkefni sem bankinn vinnur að eru tengd samfélagsábyrgð. Þau tengjast rekstrinum, starfsfólkinu og samfélaginu og miða að sparnaði í rekstri, betri nýtingu fjármuna, heilbrigðari lífsmáta og jákvæðri þátttöku bankans og starfsmanna í verkefnum utan bankans. Nánari upplýsingar um ýmsar mælingar á sviði samfélagsábyrgðar er að finna í skýrslu bankans um samfélagsábyrgð.

Góður árangur í umhverfismálum

Pappír: Nýjar aðferðir við prentun, sem teknar voru í notkun á árinu 2013, hafa hingað til dregið úr pappírsnotkun í starfsemi bankans um 63%. Pappírsnotkunin hefur minnkað úr 37,1 tonni niður í 13,6 tonn, eða úr 310 grömmum á hvern viðskiptavin niður í 115 grömm á hvern þeirra. Næstum allur pappír sem bankinn notar er umhverfisvottaður. Pappírsnotkun vegna útgefins efnis hefur minnkað um 10,8 tonn frá árinu 2013 og á sama tíma hefur það hlutfall sem prentað er á umhverfismerktan pappír aukist úr 56% í 82%.

Orka: Raforkunotkun hefur minnkað um 38,6% síðan 2012 sem má að einhverju leyti rekja til tilraunaverkefnis í hússtjórnarkerfi í höfuðstöðvum bankans.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Kolefnislosun vegna bíla hefur minnkað um 25,4% en það má að einhverju leyti rekja til endurnýjunar á bifreiðum bankans á árinu 2012. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað um 103 tonn frá árinu 2014, eða um 25%. Árið 2013 byrjaði bankinn einnig að kolefnisjafna allan mældan útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Fleiri samgöngusamningar

Markmið samgöngusamninga er að fjölga valmöguleikum starfsmanna í samgöngum þannig að þeir geti nýtt sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni, notað vistvænan ferðamáta þegar hentar en haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.

Í samgöngusamningi felst að starfsmenn skuldbinda sig til að nýta annan ferðamáta en einkabílinn vegna ferða til og frá vinnu í 60% tilvika. Bankinn endurgreiðir þeim útlagðan kostnað, allt að 84.000 krónum á ári.

Um sl. áramót voru 407 starfsmenn með virka samgöngusamninga eða 36,5% af heildarfjölda starfsmanna sem er aukning frá 32,3% á fyrra ári. Alls 104 starfsmenn skrifuðu undir samning á árinu og 78 starfsmenn, sem voru með samning, sögðu honum upp eða hættu hjá bankanum. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 259 konur og 148 karlar sem er sambærilegt við hlutfall kynjanna í starfsliði bankans.

Minni pappírsnotkun

63%minni pappír
Fjöldi samgöngusamninga