Landsbankinn vill vera eftirsóttur vinnustaður þar sem metnaður, frumkvæði og hæfileikar starfsfólks fá notið sín. Bankinn hefur innleitt aðferðafræði árangursstjórnunar til að styðja öfluga fyrirtækjamenningu þar sem allir starfsmenn bera ábyrgð á árangri.
Mannauðsstefna Landsbankans endurspeglar áherslu bankans á gott starfsumhverfi þar sem starfsánægja og öflug þekkingarmiðlun er í fyrirrúmi. Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti í launum og starfstækifærum.
Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og birt eigin greiningar um laun kynjanna. Á árinu 2015 hlaut Landsbankinn gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerkið og er stærsta fyrirtækið á Íslandi sem hefur fengið þessa viðurkenningu.
Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti í launum og starfstækifærum. Gullmerki PwC er mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar. Í jafnréttisstefnu bankans kemur m.a. fram að í Landsbankanum skuli karlar og konur hafa jafna möguleika til starfsframa og njóta sömu réttinda í starfi.
Í stefnunni kemur einnig fram að Landsbankinn stefni að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna, að störf flokkist ekki sem karla- eða kvennastörf og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Þá líðst hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.
Unnið er markvisst að því að styðja fyrirtækjamenningu þar sem viðskiptavinurinn er í fyrirrúmi, samstarf er öflugt, framfarir stöðugar og allir starfsmenn taka ábyrgð á árangri. Á árinu var innleidd aðferðafræði árangursstjórnunar til þess að styðja framangreinda menningu enn frekar. Í stuttu máli gengur árangursstjórnun út á að einbeita sér að því sem skiptir mestu máli fyrir árangur.
Með aðferðafræðinni er fest í sessi áhersla á skýra markmiðasetningu starfseininga og starfsmanna, eftirfylgni markmiða og mat á því hvernig árangur eininga hefur áhrif á heildarmarkmið bankans. Mikil áhersla hefur verið lögð á þátttöku allra starfseininga og hefur árangur verið mjög jákvæður.
Öflugir og sterkir stjórnendur gegna lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn, bæði sem virkir þátttakendur og fyrirmyndir.
* Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.
Landsbankinn framkvæmir ítarlega vinnustaðagreiningu á fyrsta fjórðungi hvers árs og aðra viðaminni um haustið. Sú síðarnefnda kallast Bankapúlsinn og er ætlað að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningarinnar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns og um starfsánægju þeirra.
Niðurstöður vinnustaðagreiningar og Bankapúlsins hafa jafnan sýnt að starfsfólk er ánægt með Landsbankann sem vinnustað, aðbúnaður er góður og liðsheildin sterk. Samhliða vinnustaðagreiningunni er framkvæmt stjórnendamat og hafa niðurstöður þess jafnan verið Landsbankanum til sóma.
Hjá Landsbankanum er litið á hæfni og fagþekkingu starfsfólks sem nauðsynlega forsendu árangurs. Markviss fræðslustefna, fjölbreytt námskeið og hvatning til símenntunar sýna að Landsbankinn er til fyrirmyndar í fræðslustarfi fyrir starfsmenn. Fræðslustarf bankans er unnið eftir gæðavottun skv. viðmiðum European Quality Mark (EQM) sem veitt er af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Á árinu 2015 hefur verið lögð áhersla á þjálfun framlínustarfsfólks í 360° ráðgjöf, aukið framboð rafrænnar fræðslu og þjálfun stjórnenda.
Árið 2015 var boðið upp á 156 viðburði og þátttakendur voru um 3.200. Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali um 3 viðburði í fræðsludagskránni. Meirihluti starfsmanna bankans er virkur í símenntun þar sem 84% þeirra sóttu sér einhverja starfstengda símenntun árið 2015 – innan eða utan bankans. Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu 2015 var 11,6 klukkustundir.
Fræðslustarf í tölum | |
---|---|
3.200 | Þátttakendur í fræðsluviðburðum hjá Landsbankanum á árinu 2015 voru 3.200 talsins. |
156 | Boðið var upp á 156 fræðsluviðburði hjá Landsbankanum á árinu 2015. |
84% | 84% starfsmanna bankans sóttu sér einhverja starfstengda símenntun árið 2015. |
11,6 | Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu var 11,6 klukkustundir. |
3 | Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali 3 viðburði í fræðsludagskránni. |