Þróun í bankastarfsemi


Viðskiptavinir vilja hafa aðgang að upplýsingum um fjármál sín og geta millifært og greitt reikninga á netinu hvenær og hvar sem er. Á næstu árum verður hægt að sinna enn fleiri þáttum bankaviðskipta með rafrænum hætti. Landsbankinn leggur mikla áherslu á að þróa tæknilausnir fyrir nýja tíma í bankaþjónustu.

Fara neðar
Í árslok 2014 rak Landsbankinn 32 útibú og afgreiðslur. Eftir sameiningu Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands árið 2015 fjölgaði útibúum og afgreiðslum bankans að nýju og eru þau nú 38.

Betri bankaviðskipti

Þróun og breytingar á starfsemi útibúa bankans var í brennidepli á árinu 2015. Hjá bankanum gengur þróunarverkefnið undir heitinu Betri bankaviðskipti. Verkefnið felst m.a. í því að bæta aðgengi viðskiptavina að sjálfsafgreiðslulausnum, s.s. netbönkum og hraðbönkum, en ekki síður í því að aðstoða þá við að nýta sér tæknina. Þannig fjölgar valkostum sem þeim standa til boða og þeir geta átt betri bankaviðskipti. Sumarið 2015 var útibúi Landsbankans í Grafarholti breytt til samræmis við þessa stefnu bankans. Nánar er fjallað um breytingar á útibúaneti Landsbankans í samfélagsskýrslu bankans fyrir árið 2015.

Þróun útibúa felst einnig í að auka áherslu á ráðgjöf. Í ársbyrjun 2015 hóf Landsbankinn að bjóða upp á 360° ráðgjöf sem er heildstæð fjármálaráðgjöf sem stendur öllum viðskiptavinum til boða. Ráðgjöfin fer þannig fram að sérfræðingur í útibúi hittir eða hringir í viðskiptavin útibúsins og saman fara þeir yfir fjármál viðskiptavinarins frá öllum hliðum. Fjallað er um lán og mismunandi lánsform, um sparnað, tryggingar, viðbótarlífeyrissparnað og fleira. Sé niðurstaðan sú að breytingar séu viðskiptavininum til hagsbóta sér útibúið um að gera breytingarnar.

Viðskiptavinir hafa lýst ánægju með þessa ráðgjöf og áfram verður lögð áhersla á hana á árinu 2016.

Á árinu 2015 veittu sérfræðingar bankans hátt í 4.800 viðskiptavinum heildstæða fjármálaráðgjöf undir merkjum 360° ráðgjafar.

Viðskiptavinir sem þáðu 360° ráðgjöf

4.800viðskiptavinir
Nánar um 360° ráðgjöf
Netbanki Landsbankans

Notkun á netbanka fyrirtækja

7%aukning milli ára

Betri netbankar og nýjar tæknilausnir

Landsbankinn vinnur stöðugt að því að bæta tæknilausnir sínar. Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á endurnýjun á netbönkum. Nýr netbanki einstaklinga var tekinn í notkun í árslok 2014 og haustið 2015 var nýrri útgáfu af farsímabankanum – l.is – hleypt af stokkunum. Aðgerðum sem hægt er að framkvæma í farsímabankanum var fjölgað til mikilla muna, virknin einfölduð og útlitinu breytt.

Netbankalausnir fyrirtækja eru í stöðugri framþróun. Á árinu var nýtt farsímaapp fyrir innskráningar í netbanka fyrirtækja tekið í notkun. Appið gegnir sama hlutverki og innskráningarlyklar og kemur í þeirra stað. Landsbankinn er fyrsti íslenski bankinn sem býður þessa lausn og hefur hún mælst vel fyrir meðal viðskiptavina. Notkun á netbankanum jókst umtalsvert frá fyrra ári. Fyrirtækjum sem nota netbankann fjölgaði um 6% og almenn notkun netbankans jókst um 7%.

Tækninýjungar hafa leitt til mikilla breytinga á viðskiptaháttum en viðskiptavinir Landsbankans leysa nú úr um 85% af erindum sínum við bankann með rafrænum hætti, s.s. í netbanka og farsímabanka.
Heimsóknir í netbanka einstaklinga
Heimsóknir í farsímabanka

Innskráningum í netbanka einstaklinga fjölgar jafnt og þétt. Á árinu 2015 fjölgaði innskráningum í netbankann um 10%. Virkum notendum hélt áfram að fjölga og í árslok 2015 töldust um 100.000 einstaklingar til virkra notenda.

Notkun farsímabankans jókst enn meira, eða um 64%. Búast má við að á næstu árum muni hlutfall þeirra sem nota farsímabankann, fremur en netbankann, enn aukast. Í raun og veru virðist aðeins vera tímaspursmál hvenær notkun farsímabankans verði meiri en notkun netbankans. 

Netbanki einstaklinga hefur tvívegis verið valinn besta þjónustusvæðið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.

Landsbankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum af nýrri kynslóð en í þeim er bæði hægt að taka út og leggja inn reiðufé. Samhliða fjölgun þessara innlagnarhraðbanka hefur notkun þeirra aukist til mikilla muna.

Sem fyrr rekur Landsbankinn víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi en í árslok 2015 rak bankinn 78 hraðbanka á 64 stöðum víða um land.
Hraðbankanet Landsbankans

Notkun hraðbanka stóð nokkurn veginn í stað á milli ára. Á hinn bóginn hækkaði heildarupphæð reiðufjár sem tekið var út um 9% á milli áranna 2014 og 2015. Heildarnotkun reiðufjár á Íslandi jókst álíka mikið á sama tímabili, skv. samantekt Seðlabanka Íslands. Að mati Seðlabankans er líklegt að fjölgun erlendra ferðamanna skýri stóran hluta þessarar aukningar. Töluverð aukning verður á notkun á hraðbönkum Landsbankans að sumarlagi, færslum fjölgar og hærri upphæð er tekin út. Aukin notkun hraðbanka yfir háannatímann í ferðaþjónustu rennir stoðum undir fyrrnefnda kenningu Seðlabankans.

Sem fyrr rekur Landsbankinn víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi en í árslok 2015 rak bankinn 78 hraðbanka á 64 stöðum víða um land.

Innlána- og greiðslukerfi bankans endurnýjuð

Á árinu 2015 var unnið af krafti að einu stærsta hugbúnaðarverkefni sem bankinn hefur ráðist í, þ.e. endurnýjun á innlána- og greiðslukerfum bankans, samhliða endurnýjun á grunnkerfum Reiknistofu bankanna. Breytingarnar munu leiða til sparnaðar og hagræðingar fyrir bankann, m.a. vegna þess að hægt verður að fækka upplýsingakerfum sem mörg eru komin til ára sinna. Draga mun úr handskráningu, gagnaöryggi mun aukast og þróun verður auðveldari.

Útibú og afgreiðslur Landsbankans 2008-2015

Breytingar á útibúaneti

Breytingar urðu á afgreiðslum og útibúum Landsbankans, einkum í tengslum við samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann á árinu 2015. Í byrjun árs rak Landsbankinn 32 útibú og afgreiðslur en 38 í árslok. Landsbankinn rekur sem fyrr langvíðfeðmasta útibúanet íslenskra banka.


Útibúanet Landsbankans