Stefna og lykilmarkmið


Í byrjun árs 2015 setti Landsbankinn sér nýja og metnaðarfulla stefnu til ársins 2020. Stefnan miðar að því að viðskiptavinir finni að með Landsbankanum nái þeir árangri og að bankinn og viðskiptavinir hans njóti gagnkvæms ávinnings. Grundvallaratriði í stefnu bankans er að hann verði til fyrirmyndar og sé traustur samherji í fjármálum. 

Fara neðar

Fimm lykilmarkmið og sjö verkstraumar

Stefna Landsbankans til 2020 er byggð á sama grunni og unnið var eftir á árunum 2010-2015. Í ársbyrjun 2015 var hert á áherslum og ný verkefni kynnt til sögunnar. Til að fylgja eftir innleiðingu stefnunnar til 2020 skilgreindi bankinn fimm lykilmarkmið og sjö verkstrauma sem eiga að tryggja innleiðingu hennar.

Landsbankinn vinnur markvisst að því að auka ánægju og tryggð viðskiptavina. Viðhorfskannanir sem gerðar eru með reglulegu millibili gefa mikilvægar vísbendingar um það hvernig bankanum gengur að ná því markmiði.

Kannanir á þjónustu bankans á árinu 2015 sýndu að viðskiptavinir bankans eru ánægðir með þjónustuna og að bankinn er á réttri leið.

Mæling á þjónustugæðum útibúa sýndi t.a.m. mikla ánægju með þjónustuna. Könnun um fasteignalán leiddi sömuleiðis í ljós að viðskiptavinir Landsbankans voru mjög ánægðir með þjónustuna. Raunar sýndi könnunin að viðskiptavinir bankans voru ánægðari en viðskiptavinir keppinauta bankans á þessum markaði. Landsbankinn hefur lagt mikla áherslu á að veita sem besta þjónustu á þessu sviði sem öðrum og því var niðurstaðan afar ánægjuleg. 

Í byrjun árs 2015 setti Landsbankinn sér þá stefnu að ná arðsemi af reglubundnum rekstri bankans yfir 10% á næstu fjórum árum.

Stórir einsskiptisliðir, aðallega jákvæðar virðisbreytingar útlána, settu mark sitt á uppgjör ársins 2015 en arðsemi eiginfjár bankans var í fyrra 14,8%. Leiðrétt arðsemi, þ.e. að frádregnum virðisbreytingum útlána o.fl., var 10,6% og er til marks um batnandi rekstur bankans.

Lykilmarkmiðin fimm snúast um:

  • Ánægða viðskiptavini
  • Arðsemi bankans
  • Kostnaðarhagkvæmni
  • Áhættuvilja
  • Ánægt starfsfólk

Arðsemi eiginfjár 2015

14,8%

Stefna Landsbankans um að lækka kostnað hefur skilað árangri. Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára, eða úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015. Þá lækkuðu laun og annar rekstrarkostnaður um 1,5% frá fyrra ári.

Kostnaðarhlutfall

Áhættumörk og markmið áhættuvilja bankans eru notuð sem stýritæki til að ná viðunandi áhættustöðu fyrir heildarstarfsemi bankans. Stjórnendur og starfsfólk stefna þannig að því á hverjum tíma að áhætta, sem bankinn tekur, sé innan áhættumarka í samræmi við settan áhættuvilja. Á árinu 2015 gekk vel að draga úr áhættu og í lok árs var heildaráhættustaða bankans í höfuðatriðum vel innan marka áhættuviljans. Áhættuviljinn hefur verið endurskoðaður og endurbættur fyrir árið 2016. Hann endurspeglar metnaðarfull markmið bankans til framtíðar.

Landsbankinn mælir reglulega viðhorf starfsfólks til bankans og fær til þess sérfræðinga utan bankans. Mikil áhersla er lögð á þjálfun og fræðslu starfsmanna, svo og árlegt frammistöðumat sem skilað hefur góðum árangri. 

Í verkstraumunum sjö sem eiga að tryggja innleiðingu stefnunnar koma fram skýr markmið og í þeim eru talin upp verkefni sem unnið verður að til ársins 2020. Hverjum verkstraumi er ætlað að hafa tiltekin, mælanleg áhrif á arðsemi eiginfjár bankans.

Click here and start typing

Sjö verkstraumar til að innleiða stefnuna

Verkstraumarnir, og þau verkefni sem undir þá falla, taka á mikilvægum umbótaverkefnum í rekstri bankans. 

Ljóst er að bankinn getur ekki reitt sig á miklar tekjur vegna jákvæðra virðisbreytinga til framtíðar og því er mikilvægt að reglubundinn rekstur bankans sé sem hagkvæmastur. Áfram er unnið að því að draga úr kostnaði, endurnýja upplýsingakerfi og þá er húsnæði höfuðstöðva bankans dýrt og óhagkvæmt.

Árangursmiðuð menning

Mikil áhersla er lögð á árangursmiðaða vinnustaðamenningu innan Landsbankans og er litið svo á að sterkari fyrirtækjamenning sé lykilþáttur til að ná góðum árangri. Markvisst hefur verið unnið að því að efla fyrirtækjamenningu í bankanum undanfarna mánuði og hefur árangurinn verið mjög góður. 

Það sem einkennir fyrirtækjamenningu bankans er:

  • Viðskiptavinurinn er settur í forgang.
  • Öflugt samstarf og stöðugar framfarir.
  • Hver og einn tekur ábyrgð á að árangur náist.
  • Við gerum þetta saman.

Innleiðingu stefnunnar er stýrt með skipulögðum hætti og reglubundið mat er lagt á árangur. Að mati Landsbankans hefur ný stefna þegar skilað eftirtektarverðum árangri.

Þróun eignarhlutar ríkisins
Upphafleg fjárfesting -122.000
Verðmæti eignarhlutar nú* 261.398
Virðisbreyting 139.398
   
Greiddir vextir -54.553
Móttekinn arður 52.875
Núvirðing vaxta- og arðgreiðslna -9.289
Hreinn fjármagnskostnaður -10.967
   
Hrein afkoma ríkisins 128.431

* Miðað við bókfært eigið fé 31.12.2015
Allar tölur í milljónum króna


Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum

Landsbankinn hf. var stofnaður 7. október 2008 með hlutafjárframlagi ríkissjóðs sem til bráðabirgða var að fjárhæð 775 milljónir króna. Við tóku samningaviðræður við kröfuhafa bankans um verðmæti eigna sem fluttar yrðu í bankann. Í desember 2009 var samkomulag undirritað á milli ríkis og fulltrúa slitastjórnarinnar (LBI hf.) um að ríkissjóður myndi eignast stærstan hluta í bankanum gegn 122 milljarða króna greiðslu. Framlag ríkisins samanstóð af 775 milljónunum, sem fyrr voru nefndar, og útgáfu skuldabréfs til 10 ára. Bréfið er með einn gjalddaga, í október 2018. Þar með eignaðist ríkið 81,3% í bankanum auk möguleika á að eignast allt að 16,6% til viðbótar án sérstaks endurgjalds en dótturfélag LBI, Landskil, átti 18,7%. Skuldabréfið er á fljótandi innlánsvöxtum Seðlabanka Íslands og hefur ríkið greitt af því vexti frá því að samningar tókust.

Í árslok 2015 átti ríkið 23.567 milljónir eignarhluta í bankanum eða 98,2% af útgefnu hlutafé. Ef frá eru dregin hlutabréf í eigu bankans er eignarhlutur ríkisins 99,1% af útgefnu hlutafé, þar af 98,8% vegna upphaflegu fjárfestingarinnar.

Eigið fé Landsbankans um áramót var 264,5 milljarðar króna. Ríkissjóður hefur greitt 54,5 milljarða í vexti af fyrrnefndu skuldabréfi frá 2009. Á sama tíma hefur ríkið fengið um 53 milljarða í arð en verði tillaga, sem lögð verður fyrir aðalfund í apríl 2016, samþykkt munu arðgreiðslur til ríkisins nema um 81 milljarði. Þar með mun ríkið hafa fengið alla vexti, sem það hefur greitt vegna skuldabréfsins, endurgreidda með vöxtum og 17 milljörðum betur. Ríkið skuldar engu að síður enn 122 milljarða vegna skuldabréfaútgáfunnar 2009. Ávinningur ríkisins nemur því um 128,4 milljörðum króna miðað við bókfært eigið fé bankans.