Ábyrg markaðssókn


Stefna Landsbankans er að vera samherji viðskiptavina í fjármálum. Hann stundar ábyrga markaðssókn og leggur áherslu á að skapa gagnkvæman ávinning og styrkja langtímasamband sitt við viðskiptavini. Á árinu 2015 jókst markaðshlutdeild Landsbankans á flestum sviðum.

Fara neðar
Landsbankinn er stærsti bankinn á Íslandi. Bankinn er með mestu hlutdeild á einstaklingsmarkaði og með mestu hlutdeild í útlánum til fyrirtækja. Á árinu 2015 var hann með mestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði og var næststærstur á skuldabréfamarkaði.

Hlutdeild á einstaklingsmarkaði

36,1%

Hlutdeild í útlánum til fyrirtækja *

41,0%
*Samkvæmt upplýsingum í ársreikningum Lands-bankans, Íslandsbanka og Arion banka fyrir árið 2015.

Hlutdeild á hlutabréfamarkaði

26,4%

Flestir í viðskiptum við Landsbankann

Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði jókst umtalsvert á árinu 2015 en samkvæmt könnun Gallup mældist hún 36,1% í árslok 2015 og hefur aldrei mælst meiri. 

Landsbankinn er stærsti banki landsins, m.a. í ljósi þessa mælikvarða en einnig ef miðað er við fjölda viðskiptavina, efnahag, eignir, fjölda útibúa og fleira. Markaðshlutdeild Landsbankans hefur aukist um 8 prósentustig frá árinu 2010.

Þróun og breytingar á starfsemi útibúa bankans var í brennidepli á árinu 2015. Þróun útibúa felst einnig í að auka áherslu á ráðgjöf. Í ársbyrjun 2015 hóf Landsbankinn að bjóða upp á 360° ráðgjöf sem er heildstæð fjármálaráðgjöf sem stendur öllum viðskiptavinum til boða.

Aukin umsvif á íbúðalánamarkaði

Íbúðalán Landsbankans jukust mjög á milli áranna 2014 og 2015 og jókst fjárhæð nýrra íbúðalána um 30% á milli ára. Alls lánaði bankinn 70,7 milljarða í ný íbúðalán á árinu 2015. Af þeirri upphæð voru um 63% verðtryggð og 37% óverðtryggð. Markaðshlutdeild Landsbankans í nýjum íbúðalánum var 38,2% á árinu. 

Skýringin á auknum umsvifum bankans á íbúðalánamarkaði er tvíþætt: Annars vegar aukin fasteignaviðskipti og verðhækkun fasteigna og hins vegar – og enn frekar – að Landsbankinn bauð hagstæðari kjör og leitaðist við að veita viðskiptavinum vandaða ráðgjöf samhliða því að leggja áherslu á skjót og fagleg vinnubrögð við lánveitingar, þ.m.t. við greiðslumat.

Alls skráði bankinn um 5.700 ný íbúðalán í bækur sínar á árinu 2015 til um 3.400 einstaklinga og er þá bæði átt við ný lán og lán vegna endurfjármögnunar.

Þróun útibúa felst einnig í að auka áherslu á ráðgjöf. Í ársbyrjun 2015 hóf Landsbankinn að bjóða upp á 360° ráðgjöf sem er heildstæð fjármálaráðgjöf sem stendur öllum viðskiptavinum til boða.
Nánar um þróun í bankastarfsemi

Markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum 2015

38,2%
Ný íbúðalán (ma. kr.)
Það er ánægjulegt að lántakendur hjá Landsbankanum eru ánægðari með ráðgjöf, ferlið við afgreiðslu og afhendingu lánanna en lántakendur hjá keppinautum, samkvæmt könnun Gallup.
Skipting útlána til einstaklinga 2015

Umsvifamestur í bíla- og tækjafjármögnun

Starfsemi Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans gekk vel á árinu 2015 og jukust útlán um 36% miðað við árið 2014. Aukin viðskipti við fyrirtæki voru fyrirferðarmest í starfseminni en eftir sem áður var Landsbankinn umsvifamestur íslensku bankanna á einstaklingsmarkaði, hvað varðar fjármögnun bíla og tækja. 

Samkvæmt könnun Gallup mældist markaðshlutdeild Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans 37,1% meðal þeirra fyrirtækja sem bjóða sérhæfða bíla- og tækjafjármögnun.

Safna sífellt fleiri Aukakrónum

Á árinu 2015 söfnuðu viðskiptavinir Landsbankans um 230 milljónum Aukakróna inn á kortin sín og hafa Aukakrónurnar aldrei verið fleiri. Aukakrónur eru fríðindakerfi sem tengist notkun á kreditkortum, svokölluðum A-kortum. 

Þegar korthafi notar A-kort fær hann greiddar Aukakrónur frá Landsbankanum, annars vegar sem hlutfall af innlendri veltu og hins vegar frá samstarfsaðilum Aukakróna sem endurgreiðsluafslátt. Á árinu 2015 fjölgaði þeim sem tengja greiðslukort sín við Aukakrónur um 6.000 og eru Aukakrónukorthafar nú alls 45.000 talsins.

Aukakrónusöfnun

Innlán

Innlán frá viðskiptavinum eru mikilvægasti þátturinn í fjármögnun Landsbankans. Innlán frá viðskiptavinum námu alls 559 milljörðum króna í árslok 2015 og höfðu þau hækkað um 7,6 milljarða á milli ára, eða um 1,4%, þrátt fyrir verulegt útflæði innlána til fjármálafyrirtækja í slitameðferð fyrir árslok 2015.

Útlán

Landsbankinn lánaði 225 milljarða króna í ný útlán en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta jukust heildarútlán bankans um samtals 93 milljarða króna. Alls voru útlán bankans 811 milljarðar króna í árslok 2015. Aukningin er fyrst og fremst vegna íbúðalána.

Þróttmikið og vaxandi hagkerfi þarf öfluga og fjölbreytta bankaþjónustu. Landsbankinn vill mæta þessum þörfum og kappkostar að veita fyrirtækjum víðtæka fjármálaþjónustu. Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann hafa aðgang að víðfeðmasta útibúaneti landsins en viðskiptavinir nýta sér einnig í síauknum mæli rafrænar lausnir í gegnum netið svo og sjálfsafgreiðslulausnir í útibúum.

Markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði

50%

Markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja í fasteignaviðskiptum og byggingastarfsemi

41%

Öflug og fjölbreytt þjónusta við fyrirtæki

Þróttmikið og vaxandi hagkerfi þarf öfluga og fjölbreytta bankaþjónustu. Landsbankinn vill mæta þessum þörfum og kappkostar að veita fyrirtækjum víðtæka fjármálaþjónustu. Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann hafa aðgang að víðfeðmasta útibúaneti landsins en viðskiptavinir nýta sér einnig í síauknum mæli rafrænar lausnir í gegnum netið svo og sjálfsafgreiðslulausnir í útibúum.

Fyrirtækjamiðstöðin í Borgartúni 33, sem veitir minni og meðalstórum fyrirtækjum á öllu höfuðborgarsvæðinu þjónustu, hélt áfram að vaxa og þróast á árinu 2015. Ánægja viðskiptavina jókst frá árinu 2015 samkvæmt könnun Gallup. Ljóst er að þetta nýja fyrirkomulag, þar sem allir starfsmenn fyrirtækjaþjónustu Landsbankans á höfuðborgarsvæðinu eru samankomnir á einum stað, skilar sér í betri þjónustu til viðskiptavina. Önnur þjónusta Landsbankans í Borgartúni 33, þ.e. einstaklingsútibú, útibú Bíla- og tækjafjármögnunar og Landsbréf, hefur enn fremur stutt við þessa breytingu.

Staða Landsbankans á fyrirtækjamarkaði á landsbyggðinni er firnasterk og styrktist enn frekar á árinu 2015, m.a. með samruna við Sparisjóð Norðurlands og Sparisjóð Vestmannaeyja. Landsbankinn er með yfirburðamarkaðshlutdeild á meðal fyrirtækja á landsbyggðinni og kannanir Gallup sýna mikla ánægju viðskiptavina.

Stóraukin notkun var á öllum rafrænum dreifileiðum bankans til fyrirtækja á árinu, s.s. netbanka fyrirtækja og B2B-þjónustu sem er sérstök viðbót við netbanka fyrirtækja, til gagnaflutnings milli bankans og bókhaldskerfis fyrirtækis.

Þessi þróun kemur ekki á óvart þar sem netbanki fyrirtækja eykur skilvirkni og yfirsýn yfir fjármál fyrirtækja. Netbankinn er í senn upplýsingaveita og aðgerðastöð sem auðveldar fyrirtækjum að taka ákvarðanir. Lykillinn að betri árangri fyrirtækja í samkeppnisumhverfi felst í aukinni hagræðingu og betri yfirsýn og með því að þróa sífellt fjölbreyttari og betri lausnir í netbanka fyrirtækja vill Landsbankinn koma til móts við þessar þarfir.

Hóflegur vöxtur í útlánum til fyrirtækja

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að veita fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu og byggja upp viðskiptasambönd til langs tíma. Landsbankinn vill vera hreyfiafl í atvinnulífinu og veita fyrirtækjum um land allt bestu fjármálaþjónustu sem völ er á. Árið 2015 einkenndist af hóflegum vexti útlána til fyrirtækja í flestum atvinnugreinum. Í árslok 2015 var bankinn sem fyrr stærsti lánveitandinn til fyrirtækja af stóru viðskiptabönkunum þremur. Á árinu 2015 var vöxtur útlána mestur til fyrirtækja í fasteignaviðskiptum og byggingastarfsemi og vó þar þyngst mannvirkjagerð í ferðaþjónustu. Útlán til fyrirtækja í sjávarútvegi stóðu því sem næst í stað árið 2015 en engu að síður var markaðshlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja í þeirri atvinnugrein langmest.*

*Samkvæmt upplýsingum í ársreikningum Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka fyrir árið 2015.
Sjávarútvegur hefur alla tíð skipað sérstakan sess hjá Landsbankanum og er samofinn sögu hans frá upphafi. Sjávarútvegurinn og atvinna tengd honum eru burðarstoðir í íslensku atvinnulífi og hefur nýsköpun og þróun í greininni verið eftirtektarverð undanfarin misseri. Bankinn kom að fjölda stórra fjárfestingarverkefna í sjávarútvegi á liðnu ári, s.s. fjármögnun á skipakaupum, fiskverksmiðjum og kaupum á félögum.

Landsbankinn vill halda áfram að taka virkan þátt í þeirri þróun sem á sér stað í íslenskum sjávarútvegi og leggja sitt af mörkum til nýrra og góðra verkefna. Liður í stuðningi bankans við framþróun í greininni er samstarfssamningur bankans við Sjávarklasann á Grandagarði.

Landsbankinn kom að fjármögnun fjölda stórra verkefna í mannvirkjagerð, bæði á sviði íbúðabygginga og hótela. Bankinn fjármagnar byggingu fjölda íbúðarhúsa sem nú eru í byggingu, m.a. byggingu 144 íbúða við Grandaveg í Reykjavík og byggingu 175 íbúða við Mánatún í Reykjavík.

Á árinu var lokið við nokkur hótel í Reykjavík sem bankinn fjármagnaði, s.s. Skugga Hótel við Hverfisgötu, Storm Hótel við Þórunnartún, viðbyggingu við Hótel Klett við Mjölnisholt og viðbyggingu við Icelandair Hotel Marina við Mýrargötu. Í byggingu eru síðan Icelandair Hotel við Hafnarstræti og Hilton Canopy hótel á Hljómalindarreit, en þau eru bæði fjármögnuð af Landsbankanum.

Landsbankinn styður uppbyggingu ferðaþjónustu með ýmsum hætti. Bankinn fylgist vel með þróun greinarinnar enda hefur hún vaxið mikið undanfarin ár og er ferðaþjónusta nú sú atvinnugrein sem skilar mestum gjaldeyri til þjóðarbúsins. Bankinn á aðild að Íslenska ferðaklasanum og studdi áfram markaðsverkefnið Ísland allt árið eins og hann hefur gert frá árinu 2012.

Á vormánuðum stóð Landsbankinn fyrir ráðstefnu um ferðaþjónustu undir yfirskriftinni Eru milljón ferðamenn vandamál? Af því tilefni kynnti Hagfræðideildin nýja og ítarlega úttekt bankans á mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi.

Landsbankinn stóð fyrir fjölda funda og ráðstefna um margvísleg málefni á árinu. Bankinn hélt m.a. fundi um hlutverk leiðtoga og stjórnenda, um olíuverð og áhrif þess á hag heimila og fyrirtækja og fund um notkun samfélagsmiðla í markaðsstarfi. Enn fremur stóð bankinn fyrir ráðstefnu um stöðu, þróun og tækifæri á fjarskiptamarkaðnum. Vel yfir 2.000 manns sóttu fundi bankans á árinu.

Ráðstefnur og tímarit

Svokallað klasasamstarf hefur aukist á Íslandi á síðustu árum og tók bankinn þátt í stofnun tveggja slíkra klasa á síðasta ári. Bankinn er þátttakandi í íslenska jarðvarmaklasanum – Iceland Geothermal Cluster. Tilgangur klasans er að efla samkeppnishæfni innan hins íslenska jarðvarmaklasa með virðisauka greinarinnar og bætta nýtingu auðlindarinnar að leiðarljósi. Bankinn var jafnframt einn af stofnaðilum Álklasans sem stofnaður var í júní 2015. Markmið þess klasa er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir viðkomandi fyrirtæki og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

Landsbankinn leggur áherslu á að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á íslenskum verðbréfamarkaði. Hjá Mörkuðum Landsbankans er veitt þjónusta sem snýr að sölu og miðlun verðbréfa, viðskiptavakt, fyrirtækjaráðgjöf, eignastýringu og einkabankaþjónustu.

Landsbankinn með mestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði

Á árinu 2015 var Landsbankinn með mestu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands, eða 26,4%. Þá var bankinn næststærstur á skuldabréfamarkaði með 20,6% hlutdeild. Kauphallaraðilar eru samtals átta og því ljóst að bankinn er leiðandi á markaði með skráð verðbréf.

Markaðir önnuðust ýmis verkefni er tengjast skulda- og hlutabréfamörkuðum á árinu 2015. Þar má nefna umsjón með sölu á 14,5 milljörðum króna af sértryggðum bréfum bankans, sölu á 10% hlut bankans í fasteignafélaginu Reitum og sölu á 8,5% hlut í Marel. Þá skrifaði bankinn undir samninga um viðskiptavakt með hlutabréf Símans, Reita og sértryggð skuldabréf Arion banka og Íslandsbanka.

Á árinu sá Fyrirtækjaráðgjöf bankans um söluna á Ellingsen, Ístaki og Promens og veitti ráðgjöf vegna kaupa Regins á fasteignasöfnum Ósvarar ehf. og CFV1 ehf.

Umfang eignastýringarstarfsemi jókst á árinu eins og undanfarin ár. Heildareignir í stýringu samstæðu Landsbankans námu 340 milljörðum króna í árslok 2015 en voru 280 milljarðar í lok árs 2014. 

Landsbankinn er helsti söluaðili verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Landsbréfa og var veruleg aukning í nýsölu sjóðanna á árinu. 

Á árinu 2015 fjölgaði viðskiptavinum í áskrift að sjóðum Landsbréfa um 44%.

Hlutdeild á hlutabréfamarkaði í Kauphöll

26,4%
Eignir í stýringu hjá Landsbankanum og Landsbréfum (ma. kr.)
Landsbankinn býður viðskiptavinum sínum fjölbreyttar leiðir við lífeyrissparnað og þessi þáttur í starfi bankans hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum. Bankinn býður bæði upp á sjóði fyrir lögbundinn lífeyrissparnað og viðbótarsparnað.

Lífeyrissparnaður hjá Landsbankanum

100milljarðar

Lífeyrissparnaður Landsbankans

Íslenski lífeyrissjóðurinn, sem er rekinn af Landsbankanum, býður fjölbreyttar ávöxtunarleiðir en auk þess býður bankinn sjálfur upp á ýmsar leiðir til lífeyrissparnaðar. Í Lífeyrisbók Landsbankans er hægt að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra innlánsreikninga og hægt er að leggja lífeyrissparnað inn á Fjárvörslureikning Landsbankans sem er safn erlendra verðbréfa.

Viðskiptavinir Landsbankans eiga nú yfir 100 milljarða í lífeyrissparnaðarleiðum sem reknar eru af Landsbankanum. Mánaðarleg iðgjöld hafa farið ört vaxandi og nálgast einn milljarð króna á mánuði.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á vandaða ráðgjöf og góða þjónustu á sviði lífeyrismála. Allir samningar um lífeyrissparnað eru gerðir af starfsmönnum bankans sjálfs.

Á árunum 2013-2015 gerðu 13 þúsund einstaklingar samning við Landsbankann um viðbótarsparnað. Samningum um lögbundinn lífeyrissparnað fjölgaði um 73% á milli áranna 2014 og 2015.

Ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins var afar góð á árinu 2015. Þannig var raunávöxtun samtryggingardeildar 11,55%. Ávöxtun séreignarleiða var sömuleiðis mjög góð en raunávöxtun í ávöxtunarleiðinni Líf I var 13,78%. Ávöxtun sjóðsins var vel yfir meðalávöxtun lífeyrissjóða á árinu 2015.

Eignir í stýringu hjá Eignastýringu Landsbankans hafa vaxið verulega milli ára. Mestur vöxtur átti sér stað á síðasta ári en þá jukust eignirnar úr 168 milljörðum króna í 210 milljarða króna eða um ríflega 25%. Ástæður góðs gengis í eignastýringu má rekja til góðrar ávöxtunar sjóða, mikils innflæðis frá nýjum og eldri viðskiptavinum og flutnings til bankans frá öðrum, bæði í lífeyrissparnaði og eignastýringu.

Fyrirtæki hafa í auknum mæli leitað til Landsbankans með lausafjárstýringu en Veltubréf eru orðin stærsti lausafjársjóður landsins.

Viðamikil útgáfa Hagfræðideildar

Hagfræðideild Landsbankans gegnir lykilhlutverki við að móta sýn Landsbankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands og utan. Deildin annast greiningu á hagkerfinu og gefur út þjóðhags- og verðbólguspár, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Deildin annast einnig greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði. Á árinu 2015 gaf Hagfræðideild alls út 343 greiningar, þar af 187 greiningar og spár um efnahagsmál og 156 greiningar í tengslum við skráð félög á hlutabréfamarkaði.
Útgáfa Hagfræðideildar
Þjóðhagsgreiningar   
Þjóðhagur 2
Ferðaþjónustuskýrsla 1
Vikubyrjun 50
Hagsjá  112 
Gjaldeyrismarkaður 11
Skuldabréf 4
Þjóðhagfræði 7
Alls 187
   
Hlutabréf   
Verðmat 19
Afkomuspá  33
Viðbrögð við afkomu 35
Umfjöllun um hlutabréfamarkað  9
Flutningatölur í flugi 8
Hluthafalistar 52
Alls 156
   
Samtals opinberar útgáfur 343