Fjármögnun Landsbankans er byggð á fjórum meginstoðum: Innlánum frá viðskiptavinum, skuldum við fjármálafyrirtæki, lántökum og eigin fé. Í júlí 2015 hækkaði alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunn bankans í BBB-/A-3 með jákvæðum horfum.
Veigamesta fjármögnun Landsbankans felst í innlánum frá viðskiptavinum og námu þau 559 milljörðum króna í lok árs 2015. Stærstur hluti þeirra er óverðtryggður og óbundinn. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 8 milljarða króna á árinu þrátt fyrir umtalsvert útflæði innlána frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð undir árslok 2015. Verðtryggð innlán námu 104 milljörðum króna í árslok 2015 og aukast þau um 6 milljarða milli ára.
Skuldir við fjármálafyrirtæki námu um 57 milljörðum króna í árslok 2015 og hækka þau um 3 milljarða milli ára en skuldir við fjármálafyrirtæki námu um 54 milljörðum króna í árslok 2014.
Landsbankinn vann að því að breikka fjármögnunargrunn sinn á árinu 2015 og lauk fyrstu útgáfunni innan EMTN-skuldabréfaramma bankans í október með útgáfu skuldabréfa til þriggja ára að fjárhæð 300 milljónir evra. Jafnframt var Landsbankinn virkur útgefandi á innlendum skuldabréfamarkaði með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og víxla.
Flokkur | Samtals |
Langtíma | BBB- |
Skammtíma | A-3 |
Horfur | Jákvæðar |
Útgáfudagur | Júlí 2015 |
Á árinu 2013 vann bankinn að því að afla sér lánshæfismats frá alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki og í janúar 2014 veitti Standard & Poor´s (S&P) Landsbankanum lánshæfiseinkunnina BB+ með stöðugum horfum. Í júlí 2015 breytti svo S&P lánshæfiseinkunn bankans úr BB+/B í BBB-/A-3 með jákvæðum horfum.
Fjórða stoð fjármögnunar Landsbankans er hlutafé, en eigið fé bankans nam 264,5 milljörðum króna í lok desember 2015, tæplega 14 milljörðum meira en í árslok 2014.
Landsbankinn greiddi tæpa 24 milljarða króna í arð til eigenda sinna á árinu 2015. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2015 var 30,4%.