Árangursrík áhættustjórnun er lykilþáttur í langtímaarðsemi og stöðugleika Landsbankans. Í áhættustjórnun felst greining, mat og stýring á áhættuþáttum í rekstri bankans og að skilvirkt skipulag til að mæta áhættu og/eða miðla upplýsingum um hana sé til staðar. Bankinn nýtir bestu viðmið í umgjörð um áhættustjórnun.
Hlutfall lána sem höfðu verið lengur en 90 daga í vanskilum lækkaði árið 2015, úr 2,3% í 1,8%. Vanskil einstaklinga minnkuðu mest, eða úr 4,1% árið 2014 í 2,7% 2015. Mikil gæði nýrra útlána stuðluðu einnig að minni meðallíkum á vanefndum.
Markaðsáhætta bankans var stöðug og innan áhættuvilja árið 2015. Bankinn hélt áfram að draga úr eignarhlut sínum í óskráðum hlutabréfum og jók jafnframt umsvif sín á fjármálamarkaði. Lausafjárhlutfall bankans er fyrir ofan lögbundið lágmark. Heildarlausafjárþekja er 113% og 360% í erlendum gjaldmiðlum, en hvoru tveggja er umfram kröfur Seðlabanka Íslands.
Landsbankinn hefur sett sér stefnu um áhættuvilja og áhættumörk fyrir árið 2016. Þó að núverandi markaðsaðstæður virðist hagstæðar eru merki um aukna ytri áhættu í rekstrarumhverfi bankans. Einkum er þar átt við þjóðhagsleg skilyrði og afnám gjaldeyrishafta sem vænta má á fyrri hluta árs 2016.
Skýr og skilvirk heimild einstakra aðila til ákvarðanatöku, stýrð áhættutaka og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans eru hornsteinar áhættustjórnunar. Landsbankinn hefur sett sér ítarlegar áhættureglur og byggt upp stjórnskipulag sem tryggir skýra ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun.
Á árinu 2015 var áfram unnið að eflingu áhættustjórnunar Landsbankans með umbótum á innri ferlum og greiningu og miðlun helstu áhættuþátta í rekstri bankans.
Mæling áhættuvilja og áhættumarka stærstu áhættuþátta í rekstri er hluti af daglegri stjórnun bankans. Þetta hefur nýst vel sem tæki til að auka gæði eignasafns, bæta samsetningu þess og draga úr áhættu. Áhættuvilji tekur ekki einungis til áhættumarka heldur felur jafnframt í sér leiðbeiningar um það viðhorf til áhættu í rekstri sem starfsmenn bankans þurfa að tileinka sér.
Áhættumörk bankans eru ávallt í samræmi við ytri lög eða reglur, ef þeim er til að dreifa, en bankinn skilgreinir einnig sjálfur fjölmörg áhættumörk sem ekki eru bundin í lög eða reglugerðir. Landsbankinn hefur sett sér markmið um fjárhagsstöðu, gæði eigna, stöðutöku og ásættanlega arðsemi til lengri tíma. Til að ná markmiðum sínum tekur bankinn aðeins þá áhættu sem hann skilur, getur metið og mætt.
Við ákvörðun áhættuvilja eru samhliða sett áhættumörk fyrir helstu þætti tengda útlána-, markaðs-, lausafjár-, fjármögnunar- og rekstraráhættu, en þau eru misítarleg eftir eiginleikum þeirra og breytileika. Áfram er stefnt að því að draga úr áhættuþáttum í rekstri.
Áhættuþáttur | Mæling |
---|---|
Útlánaáhætta |
Meðallíkur á vanefndum |
90 daga vanskilahlutfall | |
Geirasamþjöppun | |
Lántakasamþjöppun | |
Markaðsáhætta |
Hlutabréf |
Skuldabréf | |
Gjaldeyrir | |
Vaxtaáhætta utan veltubókar | |
Verðtryggingaráhætta | |
Lausafjáráhætta | Lausafjárþekja - alls |
Lausafjárþekja - gjaldeyrir | |
Fjármögnunaráhætta | Fjármögnunarþekja |
Eiginfjárhlutfall |
Áhættuþættir eru metnir með mælistikum eftir mismunandi eðli þeirra. Þær mælistikur eru m.a. nýttar við setningu áhættumarka, greiningu áhættuþátta og breytinga á þeim, miðlun upplýsinga og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er mat á eiginfjárþörf (e. economic capital).
Landsbankinn hefur undanfarin ár gefið út áhættuskýrslu sem uppfyllir upplýsingaskyldu bankans samkvæmt þriðju stoð Basel II. Í skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir öllum þáttum áhættustýringar bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu.
Áhættuskýrslunni er ætlað að gefa glögga mynd af stöðu bankans og veitir hún m.a. lykilupplýsingar um umfang, áhættuskuldbindingar, áhættumatsferli, eiginfjárstöðu og aðra mikilvæga þætti á þessu sviði.